Sérfræðiþekking ekki í mínútum og sekúndum

Gjörbylta þarf þeim forsendum sem liggja að baki kjarasamningum kennara og hætta að meta sérfræðiþekkingu þeirra í mínútum og sekúndum, sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í gær. „Kennarastéttin á að vera vel launuð og það á að meta sérfræðimenntun hennar til jafns á við sérfræðimenntun annarra stétta í landinu,“ sagði Ragnheiður og áréttaði jafnframt að til stæði að lengja kennaramenntun og það kallaði að sjálfsögðu á launabreytingar.

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði kjör kennara að umtalsefni og vildi heyra hver stefna Samfylkingarinnar væri í þeim efnum. „Í stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar sagði m.a. að það ætti að bæta launakjör hefðbundinna kvennastétta,“ sagði Valgerður og spurði hvað flokkurinn hygðist gera nú þegar hann væri í ríkisstjórn.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það bjargfasta skoðun sína að gera þyrfti betur við kennara. Í stjórnarsáttmálanum væri skýrt kveðið á um að endurmeta þyrfti kjör kvenna sem starfa hjá hinu opinbera. „Ég hef lengi kallað eftir meiri og fleiri peningum í menntakerfið,“ sagði Ágúst.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, varaði hins vegar við því að ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna færu í kapphlaup um að tilgreina stéttir sem ættu að fá meiri laun en aðrar. „Verkalýðshreyfingin ræður ekki við það í sínum röðum að gera kjarasamninga sem taka ákveðnar stéttir út úr og færa þeim meiri kauphækkanir,“ sagði Kristinn og bætti við að það ættu allir að vita.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert