Persónuvernd lagðist nýverið gegn því að vörslutími gagna í Lyfjagagnagrunni Landlæknis yrði framlengdur úr þremur árum í þrjátíu. Gagnagrunnurinn hefur að geyma upplýsingar um lyfjanotkun Íslendinga, sem Tryggingastofnun fær afhentar frá lyfsölum. Stofnunin skilaði umsögn til heilbrigðisráðuneytisins þess efnis í fyrradag í tengslum við fyrirhugað frumvarp til breytinga á lyfjalögum.
Í umsögninni, sem birt er á vef Persónuverndar, segir m.a. að núverandi reglur um þriggja ára vörslutíma miðist við ítarlega þarfagreiningu frá árinu 2003, sem leitt hafi í ljós að ekki sé þörf á að varðveita persónugreinanlegar upplýsingar nema tvö ár aftur í tímann. Nú hafi ekki komið fram hvaða breytingar hafi orðið frá því sú greining var unnin, sem leiði af sér þörf á að lengja varðveislutíma úr þremur árum í þrjátíu.
Í athugasemdum Landlæknis við frumvarpsdrög að lyfjalögum segir að óljóst sé hvaða hagsmuni sé verið að vernda með þeim ströngu takmörkunum sem nú eru í gildi. „Ljóst er að tími þessi er alltof stuttur ef á að vera hægt að nota þau mikilvægu gögn sem hægt er að afla hér á landi til að vega og meta síðkomnar aukaverkanir sem fram koma eftir markaðssetningu lyfjanna og önnur frávik frá því sem búast mátti við í upphafi,“ segir um þetta í athugasemdunum.