Hæstiréttur hefur ómerkt sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þar sem ungur maður var ákærður fyrir að hafa nauðgað ungri konu inni á salerni Hótels Sögu í maí á síðasta ári. Segir Hæstiréttur að ályktun héraðsdóms um um lögskýringu á tilteknu ákvæði hegningarlaga fái ekki staðist í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar.
Héraðsdómur sagði m.a. í niðurstöðu sinni, að það að maðurinn hefði ýtt konunni inn í salernisklefa, læst klefanum innan frá, dregið niður um hana, ýtt henni niður á salernið og síðan niður á gólf, geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hafi verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægi þetta eitt til þess að sýkna manninn af ákærunni.
Þessu er Hæstiréttur ósammála og vísar í nokkra dóma því til staðfestingar. Hæstiréttur bendir einnig á, að mat á því hvort manninum hafi átt að vera ljóst að konan hefði ekki viljað eiga kynmök við hann yrði ekki að réttu lagi reist á þeim grunni að hún hefði ekki verið honum andhverf áður en hún fór inn á salernið. Segir Hæstiréttur, að niðurstöður héraðsdóms séu ekki reistar á viðhlítandi grunni, en við frekara mat á atriðum, sem hlytu að ráða úrslitum yrði meðal annars að taka mið af sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi.
Maðurinn, sem er um tvítugt, var handtekinn í maí á síðasta ári og sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins, sem nú verður tekið fyrir að nýju í héraðsdómi.