Forustumenn landssambanda og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands sitja nú á fundum þar sem fjallað er um gagntilboð Samtaka atvinnulífsins frá því í gærkvöldi en það tilboð er svar við hugmyndum, sem Alþýðusambandsforustan lagði fram í fyrradag.
Í hádeginu er gert ráð fyrir að kynna fjölmiðlum niðurstöðuna. Sterkar líkur eru taldar á að kjarasamningar gætu tekist á allra næstu dögum.
Í kvöld verður reynt að ljúka viðræðum um sameiginleg mál Alþýðusambandsins gagnvart atvinnurekendum og reiknað er með að á morgun hefjist viðræður við ríkisstjórnina um aðkomu hennar að samningamálunum.
Samhliða þessu eru einstök félög og sambönd að reyna að ljúka samningum um sérmál.