Greiða sekt vegna samráðs

Matvara
Matvara

Sam­tök iðnaðar­ins og Sam­tök versl­un­ar og þjón­ustu hafa fall­ist á að greiða 3,5 millj­ón króna í stjórn­valds­sekt vegna brota á sam­keppn­is­lög­um vegna aðgerða sem gripið var til áður en lækk­un á virðis­auka­skatti á mat­væl­um tók gildi þann 1. mars 2007. Greiða Sam­tök iðnaðar­ins 2,5 millj­ón og SVÞ 1 millj­ón króna í sekt vegna brot­anna.

Í til­kynn­ingu frá Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu kem­ur fram að Sam­tök iðnaðar­ins (SI) og Sam­tök versl­un­ar og þjón­ustu (SVÞ) hafa viður­kennt að hafa haft um það sam­vinnu hvernig fyr­ir­tæki inn­an vé­banda sam­tak­anna stóðu að  verðbreyt­ing­um á for­verðmerkt­um mat­væl­um, í tengsl­um við lækk­un á virðis­auka­skatti úr 14% í 7% og af­nám vöru­gjalda sem gildi tók þann 1. mars. 2007.

Viður­kenna bæði sam­tök­in að á vett­vangi þeirra hafi verið ákveðið hvernig standa skyldi að verðbreyt­ingu í tengsl­um við þessa lækk­un skatta, vegna vara sem verðmerkt­ar eru hjá fram­leiðend­um um leið og þeim er pakkað. Í því sam­bandi hafi verið ákveðið hvernig til­teknu tekjutapi yrði skipt á milli viðkom­andi fé­lags­manna sam­tak­anna. Hafa SI og SVÞ viður­kennt að hafa farið gegn sam­keppn­is­lög­um að þessu leyti. Sam­tök­in hafa hins veg­ar tekið fram að ásetn­ing­ur hafi ekki staðið til þess að hindra sam­keppni, ein­ung­is að skila verðlækk­un­um til neyt­enda.

Sam­keppnis­eft­ir­litið hóf rann­sókn á fram­an­greind­um aðgerðum SI og SVÞ í fram­haldi af frétt sem birt­ist í fjöl­miðlum þann 21. fe­brú­ar 2007, en þar kom fram hvernig aðilar inn­an SI og SVÞ myndu sam­eig­in­lega bregðast við um­ræddri skatta­lækk­un.  Birti Sam­keppnis­eft­ir­litið sam­tök­un­um and­mæla­skjal í nóv­em­ber 2007, þar sem kom­ist var að þeirri frumniður­stöðu að þau hefðu brotið gegn sam­keppn­is­lög­um.

SI leituðu til Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins í kjöl­far þessa og óskuðu eft­ir því að sátt yrði gerð í mál­inu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við sam­tök­in 16. janú­ar 2008. Í sátt­inni felst að SI fall­ast á að hafa brotið gegn 12., sbr. 10. gr. sam­keppn­islaga, og fall­ast á að greiða 2,5 millj­ón­ir kr. í stjórn­valds­sekt vegna brots­ins. SVÞ skiluðu at­huga­semd­um við and­mæla­skjal Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins þann 17. des­em­ber sl. Þann 28. janú­ar óskuðu sam­tök­in hins veg­ar eft­ir því að sátt yrði gerð í mál­inu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við SVÞ 4. fe­brú­ar 2008. Í sátt­inni felst að SVÞ fall­ast á að hafa brotið gegn 12., sbr. 10. gr. sam­keppn­islaga og fall­ast á að greiða 1 millj­ón kr. í stjórn­valds­sekt vegna þessa brots, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu.

Í til­kynn­ingu frá SI kem­ur fram að sam­tök­in leituðu til Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins í kjöl­far þess að þeim var sent and­mæla­skjal og óskuðu eft­ir því að sátt yrði gerð í mál­inu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við sam­tök­in 16. janú­ar 2008.

„Mála­vext­ir eru þeir að Sam­tök iðnaðar­ins (SI) beittu sér fyr­ir því að tryggja að lækk­un virðis­auka­skatts og vöru­gjalda á mat­væli þann 1. mars 2007 skilaði sér frá fyrsta degi til neyt­enda. Því var gripið til sam­stilltra aðgerða milli fram­leiðenda og versl­ana um að setja kjöt og osta, sem eru verðmerkt hjá fram­leiðend­um, í versl­an­ir frá og með 20. fe­brú­ar með lægri skött­um, þrátt fyr­ir að þurfa að standa rík­is­sjóði skil á hærri skött­um af sömu vör­um til 1. mars. ," að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá Sam­tök­um iðnaðar­ins.

SI umb­unað fyr­ir að stíga fram og játa brot

Í til­kynn­ingu frá Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu kem­ur fram að við mat á fjár­hæð sekta var m.a. horft til þess að brot­in voru fram­in á stuttu tíma­bili. Jafn­framt var horft til þess að SI og SVÞ óskuðu eft­ir sátt­ar­viðræðum og hafa und­an­bragðslaust játað brot á sam­keppn­is­lög­um.

„Með þess­um aðgerðum sín­um hafa sam­tök­in auðveldað og stytt rann­sókn og málsmeðferð sam­keppn­is­yf­ir­valda sem hef­ur já­kvæð sam­keppn­is­leg áhrif. Litið er einnig til þess að bæði sam­tök­in hafa í mál­inu upp­lýst að þau muni setja sér regl­ur sem tryggi að sam­starf fé­lags­manna inn­an þess­ara sam­taka verði ávallt samþýðan­legt sam­keppn­is­lög­um. Hafa sam­tök­in og fall­ist á að hlíta fyr­ir­mæl­um sem eru til þess fall­in að efla sam­keppni. Hafa SI og SVÞ fall­ist á að tryggja að inn­an sam­tak­anna verði ekki fjallað um eða miðlað upp­lýs­ing­um um verð, verðþróun, viðskipta­kjör og önn­ur viðkvæm viðskipta­leg eða sam­keppn­is­leg mál­efni með þeim hætti sem dregið get­ur úr viðskipta­legu sjálf­stæði fé­lags­manna og raskað sam­keppni.

SI er sér­stak­lega umb­unað fyr­ir að stíga fyrst fram og játa þátt­töku sína í broti á sam­keppn­is­lög­um. Er al­mennt séð mik­il­vægt að fyr­ir­tæki eða sam­tök sem hafa frum­kvæði að því að játa slík brot eða upp­lýsa um þau njóti sér­stakr­ar lækk­un­ar á sekt­um. Ber í þessu máli að hafa í huga að velta SI er mun meiri en velta SVÞ. Er það ástæða þess að sekt SI er hærri en sekt SVÞ," sam­kvæmt til­kynn­ingu Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins.

Ákvörðun Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins

Sátt Sam­taka iðnaðar­ins og Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert