Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs á þriðjudaginn var rætt um skipulagsmál á Glaðheimasvæðinu. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar telja að hugmyndir meirihlutans um uppbyggingu þar til viðbótar við það sem þegar er komið séu tröllvaxnar þar sem gert er ráð fyrir allt að 9 turnum eins og þeim sem þegar er risinn við Smáratorg og jafnvel stærri.
„Tökum ekki mark á Samfylkingunni og höldum okkar striki"
„Það segir Samfylkingin en við tökum ekki mark á því, þeir eru á móti öllum skipulagsmálum hér og hafa alltaf verið. Við kippum okkur ekkert upp við það og höldum okkar striki," sagði Gunnar Birgisson bæjarstjóri í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Hann bætti því við að eðlilegt væri að byggja þétt við hraðbrautina og nýta landið sem best.
Málefni leikskólans Hvarfs við Vatnsenda voru einnig rædd á fundinum. Um áramótin var ákveðið að segja upp samningi við ÓB-Ráðgjöf þar sem reksturinn hefur gengið erfiðlega og nú hefur verið ákveðið að bærinn taki yfir reksturinn frá og með 1. maí.
Samkvæmt heimildum Fréttavefjar Morgunblaðsins ríkir mikil óvissa og óánægja meðal foreldra sem eiga börn á leikskólanum og hjá starfsmönnum sem vita lítið um starf sitt á leikskólanum.
Starfsmönnum boðið að vinna áfram
Gunnar sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að starfsmönnum leikskólans yrði boðið að vinna áfram eftir að bærinn tekur yfir reksturinn í vor.