„Það er óhjákvæmilegt að hlutfall matvöruinnkaupa af útgjöldum heimilanna, sem hefur farið úr 20% niður í 11% á sl. fimmtán árum, muni aukast aftur á næstunni.“ Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS), og byggir þessa spá sína á því að verð á öllu lykilhráefni til matvælaframleiðslu hafi hækkað um tugi prósenta á umliðnum misserum og sé enn á uppleið.
Að sögn Andrésar fylgist félagið mjög nákvæmlega með hrávörumörkuðum erlendis sem gefi góða vísbendingu um hvernig verð á hráefni til matvöruframleiðslu muni þróast næstu mánuði. „Það er ekkert sem bendir til annars en áframhaldandi hækkunar á öllu lykilhráefni til matvælaframleiðslu,“ segir Andrés og á þar við hráefni á borð við korn, maís, soja, sykur, kakó, te og kaffi. Segir Andrés sökum þessa ljóst að matvælaverð muni hækka í fyrirsjáanlegri framtíð, bæði verð á innfluttri vöru sem og innlendri framleiðslu sem noti innflutt hráefni.
Aðspurður segir Andrés þrjár meginástæður fyrir hækkununum. Þær eru aukin notkun á maís til eldsneytisframleiðslu, síaukin velmegun í Asíu og uppskerubrestur vegna afbrigðilegs veðurs.