Stórfelld fjársvik upplýst

Fartölvur og símar freistuðu þjófanna.
Fartölvur og símar freistuðu þjófanna.

Fjármunabrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur unnið að rannsókn stórfelldra fjársvika gagnvart nokkrum rafvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Upphæðin nam samtals um 12,5 milljónum króna. Fjórir menn sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins en hefur nú verið sleppt.

Að sögn lögreglunnar hófst málið þegar tveir menn, sem voru að sækja vörupöntun í verslun, voru handteknir 7. febrúar. Árvekni starfsmanna þar, og í annarri verslun til viðbótar, leiddi til þess að lögreglu var gert viðvart um hugsanlega tilraun til fjársvika.

Við rannsókn málsins kom fljótlega í ljós að fleiri voru viðriðnir það og voru 3 aðrir aðilar handteknir í kjölfarið. Krafist var gæsluvarðhalds yfir fjórum þeirra og sátu þeir í varðhaldi þar til í gær en hefur nú verið sleppt og játning liggur fyrir.

Verðmæti þeirra vara sem reynt var að svíkja út nemur samtals um  12,5 milljónum króna og af því tókst þeim að fá afhentar vörur í einni verslun fyrir um 1,3 milljónir. Lögregla fann þær við við húsleit á heimili eins sakborningsins.

Þær vörur sem reynt var að svíkja út voru aðallega fartölvur, símar og annað því tengt.

Lögreglan segir, að fyrir liggi að fjársvik þessi voru þaulskipulögð með löngum fyrirvara og m.a. voru söluaðilar blekktir með fölsuðum millifærslustaðfestingum úr heimabönkum sendum voru með tölvupósti sem breytt hafði verið með þeim hætti að hann virtist koma frá banka. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert