Vaxandi áhugi á heimavinnslu

 „Á bilinu 15 til 20 ný fyrirtæki í heimavinnslu eru að hefja rekstur á næstu tveimur árum frá og með haustinu, svo ég viti til. Það er gríðarleg bylgja í gangi,“ segir Árni Jósteinsson, atvinnuráðgjafi hjá Bændasamtökunum. „Og þetta er alls kyns vinnsla, t.d. ostagerð og sláturhús.“

Á Norðurlöndum er vaxandi áhugi á heimavinnslu og m.a. er unnið að því að fjölga smásláturhúsum í samnorrænu verkefni sem Íslendingar taka þátt í. Talsverð vinna og kostnaður fylgir því að koma upp löglegu sláturhúsi. „Það væri því ekki úr vegi fyrir menn að taka sig nokkrir saman,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrv. landbúnaðarráðherra. Meginkostnaðurinn liggur í þjónustu dýralæknis og meðferð sláturúrgangs, að sögn Árna, en nú skoða samtökin hvernig megi draga úr þeim kostnaði.

Milliliðalaus viðskipti

Bændasamtökin eru meðal þeirra sem standa að Beint af býli, verkefni um aukna matvöruframleiðslu á bóndabýlum og milliliðalausa sölu þeirra til neytenda. Nú þegar taka sextán býli þátt í verkefninu og framleiða m.a. osta, lífræna jógúrt, ís, kjötvörur, geitamjólk, sultur og vín.

„Í upphafi var hugsunin að nýta þá mjólk sem við framleiddum umfram kvóta en þetta óx okkur yfir höfuð strax,“ segir Guðrún Egilsdóttir á Holtseli um ástæður þess að hafin var ísframleiðsla á býlinu. Ísinn er strax farinn að skila arði en á býlinu eru framleiddar um 20 bragðtegundir að jafnaði, auk íss fyrir sykursjúka og ávaxtaíss fyrir fólk með mjólkurofnæmi. Framleiðslan er seld í verslunum í Reykjavík og á Akureyri, m.a. í Nóatúnsbúðunum.

Eldhús og innra eftirlit

Ísframleiðslan í Holtseli hófst fyrir tveimur árum og var býlið því með þeim fyrstu til að hefja heimavinnslu. „Það var erfitt að vera fyrstur því þegar til kom vissi enginn hvernig ætti að gera þetta. Það tók okkur heilt ár að koma þessu á koppinn,“ segir Guðrún. Síðan þá hefur þekkingin aukist innan kerfisins og m.a. hafa helstu atriði verið tekin saman í bækling í tengslum við Beint frá býli-verkefnið.

„Aðalatriðin eru að það þarf sér eldhús fyrir framleiðsluna, annað en heimiliseldhúsið, en þó eru ekki gerðar neinar sérstakar kröfur til eldhússins sem slíks. Svo þarf að vera innra eftirlit, bæði með hreinlæti staðarins og gæðum vörunnar,“ segir Árni.

Heimavinnslan gerð auðveldari

Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra hefur skipað starfshóp í samvinnu við Bændasamtökin til þess m.a. að skoða hvernig hægt sé að breyta rekstrarumhverfinu svo auðveldara verði að hefja eigin matvælaframleiðslu. Jafnframt er verið að þýða og staðfæra löggjöf frá ESB þar sem eru ákvæði sem ætlað er að örva heimavinnslu enn frekar.

Þekkirðu til?

Í hnotskurn
Samvinnuverkefni um sölu afurða beint frá framleiðanda til neytanda. Komið á fót 26. apríl 2005 og að því stóðu Bændasamtökin, Ferðaþjónusta bænda, Háskólinn á Hólum, Impra nýsköpunarmiðstöð, Landbúnaðarháskólinn og Lifandi landbúnaður. Markmiðið er að hvetja til heimavinnslu matvæla m.a. með því að gefa út leiðbeiningar fyrir bændur, þróa vörumerki og framkvæma tilraunaverkefni með bændum. Vefsíða: www.beintfrabyli.is.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert