Landspítali hefur ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið Conscriptor ehf. um ritun sjúkraskráa fyrir slysa- og bráðasvið spítalans. Fyrirtækið hefur reynslu í ritun sjúkraskráa í Svíþjóð og var með hagstæðasta tilboð í verkefnið.
Í tilkynningu kemur fram að fyrirtækið uppfyllir að öðru leyti þau skilyrði um öryggi og aðgangstakmarkanir sem spítalinn setti fram. Hér er um nýbreytni í starfi spítalans í samskiptum við einkaaðila að ræða sem tilraun.
Framkvæmdastjórn LSH ákvað 23. október 2007 að leita eftir þátttöku fyrirtækja í tilraunaverkefni fyrir slysa- og bráðasvið spítalans til þess að mæta þörfum fyrir ritun sjúkraskráa sem hafa verið meiri en sviðið hefur ráðið við. Um er að ræða ritun um 5.500 hljóðritana mánaðarlega og er miðað við að ekki líði meira en 24 tímar frá innlestri upplýsinga lækna til ritunar í sjúkraskrá, nema um helgar þá skal ritað innan 36 tíma.
Verkefnið er til 6 mánaða og verður árangur metinn að þeim tíma liðnum. Takist tilraunin vel er gert ráð fyrir að verktaki vinni áfram í 6 mánuði og þá fari fram formlegt útboð verkefnisins. Verkefnið hefst 1. maí n.k. og fær því tilboðsgjafi tvo og hálfan mánuð til þess að undirbúa verkefnið.
Jafnframt er ákveðið að eiga viðræður við Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar, sem átti næstbesta tilboð, um möguleg skráningarverkefni önnur en þau sem ákveðið er að leita eftir samningum við Conscriptor ehf.
„Gerðar eru strangar kröfur um öryggi upplýsinga. Starfsmenn viðsemjanda þurfa að undirrita þagnareið á sama hátt og starfsmenn Landspítala og nota verður tölvubúnað sem viðurkenndur er af upplýsingatæknisviði spítalans. Ekki er heimilt að veita öðrum aðgang að upplýsingunum en þeim sem til þess hafa persónulega heimild og krafist er að ábyrgðarmaður verkefnisins sé löggiltur læknaritari. Ríkt verður gengið eftir þessum skilyrðum," samkvæmt tilkynningu frá Landspítala.
Tilboð bárust frá tíu fyrirtækjum og voru sum með meira en einni útfærslu. Hlutskarpast var fyrirtækið Conscriptor ehf. vegna verðs og lýsingar á úrlausn verkefnisins. Verðtilboð nema á bilinu 422 - 1.475 kr. án virðisaukaskatts.
Lægsta boð nemur tæpum 60% af áætlunarverði spítalans. Önnur fyrirtæki sem tóku þátt í útboðinu eru: Heilbrigðisstofnunin á Siglufirði, Stakkó ehf. í Vestmannaeyjum, Registur ehf, í Reykjavík, Forsvar á Hvammstanga, Endurhæfing ehf. í Kópavogi, Miðlun ehf. í Reykjavík og á Akureyri, Ritaraþjónusta Rósu í Reykjavík, Ritarar ehf. í Reykjavík og ISS Ísland.