Sex karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdir fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnainnflutnings með skútu sem kom að landi í Fárskrúðsfirði í haust, svonefnt Pólstjörnumál. Sá sem fékk þyngsta dóminn var dæmdur í 9½ árs fangelsi en fimm fengu óskilorðsbundinn dóm í málinu en einn skilorðsbundinn.
Einar Jökull Einarsson var dæmdur í 9½ árs fangelsi. Alvar Óskarsson, var dæmdur í 7 ára fangelsi. Guðbjarni Traustason var dæmdur í sjö ára og fimm mánaða fangelsi, Marinó Einar Árnason, sæti fangelsi í 5½ ár og Bjarni Hrafnkelsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Einn þeirra sex sem var ákærður í málinu var dæmdur í eins árs fangelsi en fresta skal fullnustu refsingar hans skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi hann almennt skilorð. Frá refsivist allra skal draga gæsluvarðhald sem hver um sig hefur sætt með fullri dagatölu, samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms.
Sexmenningarnir voru dæmdir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, framið á árinu 2007, með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 23 kg og 562,73 g af amfetamíni, 13 kg og 947,45 g af MDMA dufti og 1.746 MDMA töflum til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni, en fíkniefnin voru flutt inn með skútu er lagði að bryggju í Fáskrúðsfjarðarhöfn að morgni fimmtudagsins 20. september. Lögregla fann fíkniefnin við leit í skútunni og haldlagði sama dag.
Upptæk eru dæmd 23 kg og 591,44 g af amfetamíni, 13 kg og 947,52 g af MDMA dufti, 1.746 MDMA töflur og 1 g af kannabis.
Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms þótti sannað með játningu Alvars, Einars Jökuls, Guðbjarna og Marinós Einars, og með öðrum gögnum málsins, að þeir stóðu saman að fíkniefnainnflutningnum. Þáttur hvers hinna dæmdu í skipulagningu og framkvæmd sameiginlegs brots er mjög misjafn.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í heild