Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að skakka leikinn og fjarlægja drukkna unglinga á skólaballi Menntaskólans við Sund sem haldið var á veitingastaðnum Gauk á Stöng í gærkvöldi.
Ein stúlka veittist að gæslumönnum og var að sögn lögreglu með uppsteyt. Var hún ein þeirra sem lögreglan tók í gæslu uns foreldrar sóttu börn sín á lögreglustöðina.
Stúlkan sýndi lögreglunni ekki mikla virðingu og sagði varðstjóri að hún hefði hrækt framan í lögreglumann í þann mund sem móðir hennar kom að sækja hana.