Frumvarp framsóknarmanna um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins þess efnis að náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð eignarétti, verði þjóðareign er „stærsta mál þingsins“, að sögn Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins. Guðni telur stuðning allra flokka vísan í þessu máli, sem brýnt sé að ljúka sem allra fyrst. Þetta kom fram á blaðamannafundi í gær.
„Við vildum vekja þessa umræðu strax í upphafi kjörtímabils, því við verðum að ljúka þessum málum. Sannarlega er það svo, hvað varðar stjórnarskránefndina, að störf hennar virðast stranda um sinn og er auðvitað mjög mikilvægt að vekja hana til starfa á nýjan leik,“ sagði Guðni og vísaði til auðlindanefndar Alþingis, sem var kjörin í júnímánuði 1998 og skilaði niðurstöðu árið 2000.
„Forsætisráðherra þarf að taka af skarið í þeim efnum að koma starfi þessarar nefndar í gang á nýjan leik. Og ég skora á hann að gera það.“