Fundi fjögurra ráðherra, Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra með forystu ASÍ var að ljúka. Í beinu framhaldi hefst fundur ráðherra með forystu Samtaka atvinnulífsins.
Á fundunum er rætt um hvernig ríkisstjórnin komi að gerð kjarasamninga en í gær var gengið frá samkomulagi um kjarasamninga á milli landssambanda ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt því hækka lægstu laun á samningstímanum um 32%. Vonast er til þess að skrifað verði undir nýja kjarasamninga um helgina ef ekkert óvænt kemur upp á.
Fulltrúar ASÍ á fundinum voru hóflega bjartsýnir að honum loknum en þeir fengu þau svör hjá ríkisstjórninni að allt annað yrði sett til hliðar í dag og eftir hádegi hæfist vinna við að útfæra mögulegar leiðir sem hægt væri að fara í málinu. Engin sérstök niðurstaða fékkst á fundi ASÍ og ráðherranna eða tillögur nema jákvæður vilji ríkisstjórnarinnar um að gera sitt. Hver aðkoma ríkisstjórnarinnar verður mun væntanlega skýrast síðar í dag.