Ljóst er að mikil hætta skapaðist þegar bíll hafnaði í Elliðaánum á miðvikudagskvöld þegar ökumaður missti stjórn á bílnum á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Hann er grunaður um ölvun við akstur og var próflaus að auki. Lögreglan er með málið til rannsóknar og segir manninn, sem er 21 árs að aldri, hafa komið við sögu lögreglu m.a. vegna umferðarlagabrota.
Maðurinn er ekki eigandi bílsins en hafði hann til umráða að sögn lögreglunnar. Er bíllinn töluvert skemmdur eftir óhappið. Maðurinn kom á talsvert mikilli ferð niður Bústaðaveginn og ók þvert yfir Reykjanesbrautina og þaðan út af, niður brattan fláa og loks út í á. Lögreglan segir að maðurinn hafi mátt þakka fyrir að sleppa lítið meiddur úr óhappinu, að ekki sé talað um þá hættu sem hefði getað steðjað að gangandi fólki við ána.
Maðurinn yfirgaf bílinn og gekk til baka og fann lögreglan hann við Tunguveg og færði á slysadeild.