Ofn gangsettur á Grundartanga

Einn af þremur ofnum Járnblendifélagsins á Grundartanga verður gangsettur á mánudaginn eftir um sex vikna rekstrarstöðvun vegna undirbúnings fyrir nýja framleiðslu.

Meðal annars var sett ný fóðring í ofninn úr eldföstum steinum, kolefni og bindiefnum. Fyrstu vikuna er ofninn látinn ganga á litlu álagi til að hita, þurrka og baka nýju fóðringuna áður en unnt er að auka álagið og hefja framleiðslu.

Þegar ofninn er „tilkeyrður“ stígur upp frá honum vatnsgufa og meiri reykur en ella, meðal annars vegna þess að aftengja verður reykhreinsivirki ofnsins á meðan þetta ferli varir. Reykhreinsivirkið verður síðan virkjað að nýju þegar framleiðsla hefst í ofninum.

Járnblendifélagið tilkynnti Umhverfisstofnun um að til stæði að gangsetja ofninn, eins og venja er í slíkum tilvikum. Eldföst fóðring ofna Járnblendifélagsins er endurnýjuð á þennan hátt á 15 ára fresti að jafnaði, einn í einu, samkvæmt vef Hvalfjarðar. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert