Sjötíu manns tóku þátt í umönnun fatlaðs manns, sem býr heima hjá sér, á fimmtíu daga tímabili. Átti þetta sér stað á síðasta ári. Fimmtíu og fimm starfsmenn heimahjúkrunar sinntu umönnuninni, frá einu upp í tíu sinnum hver, frá félagsþjónustu komu fimm starfsmenn og frá svæðisskrifstofu fatlaðra tíu. Maðurinn er lamaður eftir slys og gerði lítið annað á umræddu tímabili en leiðbeina nýju starfsfólki við umönnun sína. Hann segir ástandið eitthvað hafa batnað síðustu vikur.
„Þeir sem bera ábyrgð á þjónustunni spyrja aldrei okkur, sem erum kúnnarnir, hvernig okkur líki það sem í boði er og hvort eitthvað mætti betur fara,“ segir maðurinn. „Maður vill ekki vera að fá endalaust nýtt fólk heim til sín til að sinna manns persónulegu þörfum,“ segir hann. „En það er engin önnur þjónusta í boði, það er ekki hægt að leita neitt annað. Það er annaðhvort þetta eða fara inn á stofnun.“
Hann segir fyrirkomulagið í nágrannalöndunum annað. Í Danmörku geti notendur t.d. stjórnað því hvaða þjónustu þeir fá, til þess fái þeir ákveðið fjármagn. Hann segir heimahjúkrunina að mörgu leyti góða, en vildi hafa fleiri valmöguleika.
„Þetta er alls ekki í lagi, hvorki fyrir þjónustuveitanda né -þiggjanda,“ segir Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins. Hann bendir á að heimaþjónusta sem veitt sé hér á landi sé ekki samræmd, margar stofnanir komi að máli hvers og eins. Starfsfólkið sé frábært en skipulagið lélegt. „Ef unnið hefði verið eftir danska kerfinu hefðu líklega komið fimm til sjö manneskjur að þessu sama verkefni,“ segir Guðjón. |