Undirbúningsvinna að hefjast

Frá fundinum í morgun í Ráðherrabústaðnum
Frá fundinum í morgun í Ráðherrabústaðnum

Ríkisstjórnin er að setja af stað umfangsmikla vinnu við að undirbúa með hvaða hætti stjórnvöld geta greitt fyrir niðurstöðu kjarasamninga með aðgerðum, m.a. í skattamálum, velferðarmálum og starfsmenntamálum. Þetta var ákveðið í framhaldi af fundum fjögurra ráðherra í Ráðherrabústaðnum með forystu ASÍ fyrir hádegi og forystu Samtaka atvinnulífsins í hádeginu.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði eftir fundina að bæði ASÍ og SA væru með ákveðnar hugmyndir um aðkomu ríkisstjórnarinnar. ,,Við munum funda með þeim frekar. Fyrst munu sérfræðingar frá báðum aðilum setjast niður og fara yfir það sem er á þessu borði. Það eru hugmyndir sem tengjast skattamálum, húsnæðismálum, starfsmenntunarmálum. Svo sjáum við hverju fram vindur," sagði Geir.

,,Við þurfum líka að átta okkur á hvað við erum að tala um að þetta nái yfir langt tímabil. Helst viljum við tímasetja svona hluti út allt kjörtímabilið en það er þá að því gefnu að líklegt sé að kjarasamningarnir haldi megnið af því tímabili," sagði Geir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði eftir fundina að nú færi af stað vinna í framhaldi af þessum viðræðum. ,,Það er alveg greinilegt að það er verið að vinna út frá þeirri grundvallarhugmynd annars vegar að auka hér jöfnuð og hins vegar að tryggja jafnvægi. Þetta tvennt verður að fara saman og ríkisstjórnin hlýtur að vinna út frá því," sagði hún.

Auk Geirs og Ingibjargar sátu Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra fundina með forystmönnum ASÍ og SA, auk ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

Óvíst er hvort niðurstaða úr þessari vinnu liggur fyrir um helgina eða í byrjun næstu viku. Geir sagði hugsanlegt að ráðherrar myndu eiga fundi með forystu samtakanna um helgina en það væri ekki afráðið. Ingibjörg kvaðst telja að þetta tæki lengri tíma en svo að niðurstaða lægi fyrir í dag eða á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert