Enn hefur ekkert spurst til Annþórs Kristjáns Karlssonar, 32 ára, sem strauk úr fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík liðna nótt. Víðtæk leit lögreglu stendur yfir að strokufanganum og lýst hefur verið eftir honum, en Annþór er sagður hættulegur.
Annþór var handtekinn nýverið í tengslum við innflutning á fimm kílóum af fíkniefnum sem komu til landsins með hraðsendingu frá Þýskalandi í nóvember í fyrra. Annþór er einn af fjórum sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald vegna málsins.
Annþór, sem er 186 sentimetrar á hæð, var klæddur í hvítan bol, bláar gallabuxur og er talinn vera í íþróttaskóm. Hann er þrekvaxinn og með ljóst hár. Lögreglan hvetur alla sem telja sig hafa upplýsingar um ferðir hans til að hafa samband í síma 800-1000 eða 420-1800