Á síðustu árum hefur stuðningur fyrirtækja og fjármagnseigenda við menningarlífið hér á landi aukist umtalsvert. Til dæmis söfnuðust í fyrra 27 milljónir króna frá einkaaðilum til stuðnings uppsetningu sýningar Steingríms Eyfjörð, Lóan er komin, á Feneyjatvíæringnum. Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, segir að í góðu efnahagsástandi síðustu ára hafi reynst auðveldara að sækja fjármagn til einkageirans en áður. Stuðningur einkaaðila við hátíðina í fyrra nam 40 milljónum.
„Ég er sannfærður um að menn fái þetta til baka,“ segir Sigurður Gísli Pálmason fjárfestir. Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, segir alla græða þegar fé er veitt til menningarmála. „Öflugt menningarlíf gerir gott samfélag enn betra,“ bætir hann við.
Ýmsir úr menningargeiranum, sem rætt er við, eru uggandi um framtíðina; spá því að í ljósi erfiðara efnahagsástands verði jafnvel dregið stórlega úr fé til menningarinnar. „Það verður að hugsa um neðstu línuna,“ segir einn viðmælandi.