Kjaraviðræður stóðu fram undir miðnætti í Karphúsinu í gær. Flestir sem að þeim koma voru búnir upp úr klukkan ellefu en Starfsgreinasambandið fundaði með Samtökum atvinnulífsins lengur. Flestir viðmælendur Morgunblaðsins voru bjartsýnir á daginn í dag, en þeir halda vinnu áfram nú klukkan tíu fyrir hádegi. „Það sem er enn á sameiginlegu borði ASÍ klárast öðrum hvorum megin við hádegið,“ sagði Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, taldi einungis fjórtán sérkröfur mismunandi aðila enn á sínu blaði og var jákvæður um framhaldið. Fulltrúar landssambanda sem rætt var við voru sömuleiðis jákvæðir, þótt undirskriftir og handabönd biðu helgarinnar, en þyngra hljóð var í Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins, sem kvaðst vonsvikinn af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í gær. Ráðherrar hefðu virst óundirbúnir þrátt fyrir að hafa haft aðgang að kröfugerðum síðan í desember.