Rannsókn fíkniefnamáls í hættu?

Tveimur tímum eftir að Annþór K. Karlsson strauk úr fangageymslum lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík varð brotthvarfs hans vart og leit var hafin. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á að líta eftir gæsluvarðhaldsföngum á tuttugu mínútna fresti.

Annþór hafði daginn áður verið fluttur af Litla-Hrauni til Reykjavíkur þar sem átti að leiða hann fyrir dómara og óska eftir framlengingu gæsluvarðhalds. Á Litla-Hrauni hafði hann verið í einangrun en í fangageymslum í Reykjavík var hann vistaður á svokölluðum fangagangi þar sem fangar geta gengið um. Þegar lögreglan gaf út lýsingu á Annþóri í gær fylgdi það sögunni að hann væri talinn hættulegur en hann hefur m.a. hlotið dóma fyrir alvarlegar líkamsmeiðingar.

 Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er nokkur hætta talin á að strok Annþórs skaði rannsókn á stóru fíkniefnamáli sem hann er í haldi út af, en hversu alvarlega muni koma í ljós við yfirheyrslur á næstunni. Þó að lögreglan teldi ólíklegt að Annþór myndi nota nýfengið frelsi til að ógna vitnum sem tengjast rannsókn málsins hafði hún samband við fólkið sem um ræðir og lét það vita af strokinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert