Ríkisstjórnin lofar að bregðast hratt við óskum ASÍ og SA

Ríkisstjórnin setti af stað vinnu í gær við að undirbúa með hvaða hætti stjórnvöld gætu greitt fyrir niðurstöðu kjarasamninga með aðgerðum, m.a. í skattamálum, velferðarmálum og starfsmenntamálum. Þetta var ákveðið í framhaldi af fundum fjögurra ráðherra í Ráðherrabústaðnum í gær með forsvarsmönnum ASÍ fyrir hádegi og með forystu Samtaka atvinnulífsins í hádeginu. Forystumenn samtaka á vinnumarkaði sögðu skýrt að þótt kjarasamningar væru í sjónmáli yrði ekki skrifað undir nýja samninga fyrr en ljóst yrði hver aðkoma stjórnvalda yrði.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir að fulltrúar sambandsins hafi í sjálfu sér ekki búist við að fá endanleg svör frá ríkisstjórninni á fundinum í gærmorgun. Hann segist vera hóflega bjartsýnn eftir fundinn. „Nú verður sett í gang ákveðin vinna. Tíminn er knappur,“ sagði Grétar.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði eftir fundina að bæði ASÍ og SA væru með ákveðnar hugmyndir um aðkomu ríkisstjórnarinnar. ,,Við munum funda með þeim frekar. Fyrst munu sérfræðingar frá báðum aðilum setjast niður og fara yfir það sem er á þessu borði. Það eru hugmyndir sem tengjast skattamálum, húsnæðismálum, starfsmenntunarmálum. Þetta er það helsta sem er verið að ræða. Svo sjáum við hverju fram vindur,“ sagði Geir. ,,Við þurfum líka að átta okkur á hvað við erum að tala um að þetta nái yfir langt tímabil. Helst viljum við tímasetja svona hluti út allt kjörtímabilið en það er þá að því gefnu að líklegt sé að kjarasamningarnir haldi megnið af því tímabili,“ sagði Geir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert