Spassky til Íslands

Friðrik Ólafsson og Boris Spassky við skákborðið sem notað var …
Friðrik Ólafsson og Boris Spassky við skákborðið sem notað var í heimsmeistararaeinvíginu í Reykjavík 1972. Árvakur/Ómar

Boris Spassky, fyrrverandi heimsmeistari í skák og góðvinur Bobbys heitins Fischers, kemur til Íslands í byrjun mars. Spassky kemur í tengslum við Alþjóðlega skákhátíð sem Skáksamband Íslands stendur fyrir dagana 3. til 12. mars nk.

„Bobby Fischer hefði orðið 65 ára gamall hinn 9. mars og okkur þótti við hæfi að bjóða bæði Boris Spassky sem og öðrum samferðamönnum Fischers og meisturum af eldri kynslóðinni til landsins í tengslum við skákhátíðina," segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands.

„Skákmeistarar á borð við Pal Benko, Vlastimil Hort og Lajos Portisch, sem eldri kynslóðin man sérstaklega vel eftir, munu ásamt Friðriki Ólafssyni minnast meistarans með sérstakri hátíðardagskrá á 65 ára afmælisdaginn sem nánar verður kynnt síðar. Sumir þessara manna voru bundnir Fischer miklum persónuböndum og vilja því koma saman hér í Reykjavík á þessum degi. Við hlökkum til að taka vel á móti þeim."

Von er á tugum skákmeistara alls staðar að úr heiminum til að tefla á Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu sem hefst hinn 3. mars nk. Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið var fyrst haldið árið 1964 og er með eftirsóttustu og sögufrægustu opnu skákmótum heims, að sögn Guðfríðar Lilju, en sigurvegari fyrsta mótsins var Mikhail Tal, fyrrverandi heimsmeistari í skák.

„Borgaryfirvöld samþykktu í fyrra að stefna að því að Reykjavík yrði skákhöfuðborg á heimsmælikvarða. Við ætlum að standa að sérlega glæsilegri alþjóðlegri skákhátíð í ár, en dagskráin öll verður kynnt betur á næstu dögum. Það eina sem ég get sagt er að þetta verður mikill hvalreki fyrir íslenska skákunnendur."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert