Tífalt fleiri konur fara í flugnám

Hart er sótt að enn einu karlavíginu, flugstjórnarklefanum. Hlutfall kvenna sem stunda nám í Flugskóla Íslands hefur um það bil tífaldast á átta árum. Í dag eru 75 nemendur í bóklegu námi við Flugskólann, þar af 25 konur. Það þýðir að 33% nemendanna eru konur, en þar til fyrir átta árum var hlutfall kvenkynsnemenda 2 til 5%.

„Konum hefur fjölgað jafnt og þétt við skólann undanfarin sjö eða átta ár,“ segir Baldvin Birgisson, skólastjóri Flugskóla Íslands. „Áður var ekki óeðlilegt að ein til þrjár stúlkur væru að læra við skólann hverju sinni. Nú er enginn bekkur sem þar sem hlutur kvenna er minni en 20 til 30%, en fjöldi stráka við skólann hefur staðið nokkuð í stað.“

Baldvin segist telja ástæðu þessarar hröðu fjölgunar vera fyrst og fremst þá, að þegar konur sáu aðrar konur læra flug hafi þær áttað sig á því að þær gætu það ekkert síður en karlar, og því fylgt eftir fordæmi brautryðjendanna.

Hann segir að kvenkyns flugmenn hafi mögulega fundið fyrir fordómum á árum áður. „En ég tel að konur sem fljúga verði ekki fyrir aðkasti í dag, því fólki finnist það orðið sjálfsagt - sérstaklega yngra fólki. Það kann þó að eima eitthvað eftir af gamaldags viðhorfum hjá eldra fólki, sem finnst skrítið að heyra að flugstjórinn sé kona.“

„Þetta leggst mjög vel í mig, og ég hef ekkert nema gott um flugnámið að segja,“ segir Sigrún Huld Guðmundsdóttir, sem nýlega útskrifaðist sem atvinnuflugmaður. Hún tekur undir með Baldvini um að konur sem fljúga verði ekki fyrir fordómum í dag, og segir vakningu hafa orðið meðal kvenna um að þær geti orðið flugmenn ekki síður en karlar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert