Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, er undrandi á ummælum Sigurðar Jónssonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), í Morgunblaðinu í dag þess efnis að hann sé óánægður með sátt sem SVÞ gerðu við Samkeppniseftirlitið.
Í sáttinni fólst að SVÞ greiddu eina milljón króna í stjórnvaldssekt og viðurkenndu að hafa gerst brotleg við samkeppnislög þegar þau, ásamt Samtök iðnaðarins, beittu sér fyrir því að aðildarfélög þeirra samræmdu lækkun á virðisaukaskatti fyrir tæpu ári síðan. Sigurður sagði SVÞ einungis hafa reynt að tryggja að skattalækkun yfirvalda á matvælum gengi vel fyrir sig og skilaði sér til neytenda.
"Það kemur á óvart að framkvæmdastjóri SVÞ lýsi því yfir að hann sé ósammála sátt sem hann sjálfur óskaði eftir og undirritaði, að hann telji núna að ekkert samráð hafi átt sér stað. Í málinu þá höfðu SVÞ tvo valkosti, annars vegar að taka til varna í málinu og láta eftir atvikum reyna á niðurstöðuna fyrir áfrýjunarnefnd og þess vegna dómstólum og svo hins vegar þá höfðu þau þann kost að óska eftir sátt og þau völdu að óska eftir sáttinni," segir Páll Gunnar.
"Í sáttinni felst að SVÞ viðurkenna samkeppnishamlandi samráð sem fólu í sér brot á samkeppnislögum. Þau féllust á að greiða sektir og skuldbundu sig til að tryggja að brot af þessu tagi ættu sér aldrei aftur stað. Þessi viðbrögð framkvæmdastjórans nú, eftir að málinu er lokið, hljóta þess vegna að verða Samkeppniseftirlitinu umhugsunarefni."
Páll Gunnar segir það liggja fyrir að aðgerðir SVÞ hafi að engu gert það samkeppnislega tækifæri sem skapaðist fyrir aðila á markaðnum, svo sem til þess að veita hver öðrum verðsamkeppni í kjölfar virðisaukaskattsbreytinganna. Aðgerðir SVÞ hafi augljóslega haft skaðleg áhrif á samkeppnina.
Hvað ákvörðun upphæðar stjórnvaldssektarinnar varðar segir Páll Gunnar að horft hafi verið til þess að samtökin óskuðu eftir sáttarviðræðum og játuðu brot á lögunum. Með því hafi þau stytt rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda. Þá hafi þau upplýst að þau myndu setja sér reglur sem tryggðu að samstarf félagsmanna innan samtakanna yrði alltaf samkvæmt
samkeppnislögum.
"Þau leituðu eftir sáttinni, þau ákváðu sjálf að óska eftir sátt, þau játuðu brot sín, féllust á sektir og að grípa til aðgerða til að þetta myndi ekki gerast aftur. Þess vegna er það umhugsunarefni að samtökin koma svona fram þegar niðurstaða er fengin í málinu og eru ósammála niðurstöðunni."