Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hækka laun kennara umtalsvert í þessum kjarasamningum. Hann heldur raunar að komið sé að ákveðnum þáttaskilum í skólamálum hér á landi. Sveitarstjórnarmenn verði að breyta um hugsun. Hætta að líta á skólamál sem fjárfestingu í steypu, stáli og gleri og fara að líta til innra starfs.
„Innra starfið, menntun og símenntun kennara er lykillinn að árangri. Þar skipta þrír þættir mestu máli. Í fyrsta lagi kjör og aðbúnaður starfsfólks. Í annan stað skipulag skólastarfsins. Og í þriðja lagi innra starfið sjálft og efling þess. Allt kostar þetta tíma og peninga og ég tel að komið sé að þeim tímapunkti að menn skipti um áherslur, fjárfesti í þekkingu og innra starfi," segir Jónmundur í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Reyndu að finna lausn fyrir Bónus
Mikið hefur verið rætt og ritað um brotthvarf Bónuss úr bænum og segir Jónmundur að sér þyki leitt með hvaða hætti Bónusmenn ákváðu að segja skilið við bæinn. „Bæjarstjórn taldi sig í samstarfi um þetta þar til við heyrðum einhliða yfirlýsingu Bónuss í fjölmiðlum um að þeir hygðust fara af Nesinu. Þetta kom á óvart enda held ég að ekki sé með nokkru móti hægt að segja að bæjaryfirvöld hafi ekki lagt sig fram um að finna lausnir á þessu máli. Að segjast hafa verið bolað burt er fjarstæða og allt að særandi fyrir bæjarstjórn Seltjarnarness að sitja undir."