Aðilar vinnumarkaðarins aftur í Karphúsið

Stjórnarráð Íslands
Stjórnarráð Íslands mbl.is/Jim Smart

Fundi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda er lokið. Fundurinn stóð mjög stutt yfir, en á honum afhentu formenn stjórnarflokkanna Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, samningsaðilum skjal í átta liðum þar sem skýrt er frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga. Forystumenn ASÍ og SA fóru að fundinum loknum aftur í Karphúsið þar sem þeir sitja nú á fundi.

Í viðtali í Silfri Egils í dag sagði Geir H. Haarde að persónuafsláttur verði hækkaður meira en gert hefur verið ráð fyrir í nýlegum lögum. Þá sagði Geir að ríkisstjórnin muni væntanlega funda með samningsaðilum í dag um aðkomu sína að kjarasamningagerð.

Aðkoma ríkisstjórnarinnar verður einhliða, og felur meðal annars í sér hækkun barnabóta og viðmiðunarmörk vegna vaxtabóta. Þá segir Geir stefnt að því að fyrirtækjaskattur lækki í 15%.

Samningar SA og ASÍ eru tilbúnir efnislega að öðru leyti en því að ekki er vitað hvernig aðkomu stjórnvalda verður háttað.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ sagði í samtali við mbl.is í dag að það væri ljóst að ekki yrði skrifað undir fyrr en svör ríkisstjórnarinnar liggi fyrir og séu ásættanleg.

Það kemur því í ljós á næstu klukkutímum hvort skrifað verður undir kjarasamninga í dag. Ef aðilar að samningum sætta sig ekki við aðgerðir stjórnvalda er óvíst hvað tekur við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert