Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 7. febrúar sl. var verktakafyrirtækið Jarðvélar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri er Lárentsínus Kristjánsson hrl. og verður skiptafundur haldinn 30. apríl nk.
Jarðvélar unnu að tvöföldun Reykjanesbrautar en fyrirtækið sagði sig frá verkinu vegna rekstrarerfiðleika. Til stóð að semja við undirverktakann Eykt um að klára verkið en frá því var horfið. Fyrir liggur að bjóða þarf verkið út að nýju og munu verklokin tefjast af þeim sökum til næstu áramóta. Samkvæmt áætlunum átti verkinu að ljúka í júlí nk.