Kannar á eigin skinni hvernig kerfið virkar

Ingibjörg Pálmadóttir og Haraldur Sturlaugsson.
Ingibjörg Pálmadóttir og Haraldur Sturlaugsson.

Ráðgjafanefndin, sem Ingibjörg Pálmadóttir er formaður í, hefur m.a. það hlutverk að móta stefnu og vera forstjóra til ráðgjafar um málefni spítalans. Ingibjörg segir að síðan þá megi segja að hún hafi verið „á fullu að kanna innviði stofnunarinnar,“ og það á eigin skinni. „Það voru ekki liðnir margir dagar frá því að ég tók við hinu merka hlutverki að ég ákvað að prófa að leggjast inn á bráðamóttöku,“ segir Ingibjörg sem deilir sögu sinni með starfsfólki sjúkrahússins í innanhúsfréttabréfinu Spítalapúlsinum sem kom út í vikunni.

Á bráðamóttökunni dvaldi Ingibjörg næturlangt en fór í kjölfarið í kransæðaþræðingu. En sjúkrasögunni var ekki þar með lokið. „Þegar ég svo útskrifaðist þetta fyrra sinnið, sæmilega málhress að minnsta kosti, fannst mér kerfið ekki nægilega reynt þannig að ég sendi bónda minn í sama leiðangur.“

Bóndi Ingibjargar er Haraldur Sturlaugsson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarmaður í HB Granda á Akranesi, og dvaldi hann einnig á bráðamóttökunni. Sagði hann eftir þá reynslu að hver sá sem teldi að ekki ætti að flýta byggingu nýs spítala í Reykjavík „ætti að liggja þarna hið minnsta í tvær nætur og það í hinu almenna rými þar sem karlar með hjartaverki, konur með utanlegsfóstur, kveisur og uppköst af ýmsu tagi, liggja öll á sömu stofu ásamt háöldruðu fólki sem neitar að fara heim þegar búið er að stilla gangverkið og heimtar að nú sé litið á gyllinæðina sem plagað hefur lengi,“ líkt og Ingibjörg kemst að orði í Spítalapúlsinum. „Það er sem sagt hægt að læra mikið um hina fjölbreytilegu krankleika með því að gista bráðavaktina því erfitt er að dulkóða milli tjalda,“ segir Ingibjörg.

Eftir að bóndinn hafði reynt kransæðaútvíkkun fór Ingibjörg með hann heim á leið en ekki vildi þá betur til en svo að hann missti meðvitund á leiðinni við hliðina á henni í bílnum. Haraldur kom svo heim af sjúkrahúsinu allmörgum dögum síðar.

„Þá fór ég að sjálfsögðu að hugsa mér til hreyfings aftur enda aldrei verið mikið fyrir slór,“ lýsir Ingibjörg atburðarásinni. „Hélt ég fljótlega aftur að heiman og nú allan hringinn aftur á Lansanum og dvaldi nú lengur en nokkru sinni fyrr og prófaði flest tæki og tól sem á annað borð voru í lagi.“

Ingibjörg segist nú vera „að vinna í því að ná bata. Ráðgjafanefndin sem hún sé í formennsku fyrir, hafi nýlega fengið erindisbréf. „En ég er í leyfi frá formannsstörfunum á meðan ég er að kanna kerfið,“ segir hún hlæjandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert