„Það er ekki boðlegt ástand, sú lýsing sem þarna kemur fram. Þetta er birtingarmynd á manneklunni í velferðarkerfinu, sem er eitt af þess stærstu vandamálum en er líka afleiðing þess að heimahjúkrun er á vegum ríkisins og heimaþjónusta hjá sveitarfélögum,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra í tilefni fréttar Morgunblaðsins af ástandi í heimaþjónustu fatlaðra þar sem 70 starfsmenn þriggja stofnana sinntu einum manni á 50 dögum.
„Nú er í gangi tilraunaverkefni, sem unnið er á grundvelli ítarlegrar skýrslu sem unnin var á þessu sviði. Þjónustuna átti að meta þegar því lyki. Í tilefni af þessum fréttum er líklega tilefni til þess að taka stöðuna á þessum málum og ég sé ástæðu til að kalla nefndina saman í framhaldinu,“ segir Jóhanna ennfremur. Hún segir æskilegt að samhæfa þjónustuna á næstu árum en hvort tveggja heimaþjónusta og -hjúkrun eigi heima hjá sveitarfélögunum.
„Ég veit út af fyrir sig ekki hvað er hægt að gera einmitt núna, það væri auðvitað hægt að gera samninga um að þessi þjónusta væri á sömu hendi en það fer eftir samningsvilja hjá bæði ríki og sveitarfélögum. Verið er að vinna að því að flytja málefni aldraðra og fatlaðra yfir til sveitarfélaga, en það mun ekki gerast fyrr en 2011 í málefnum fatlaðra,“ segir hún.
Að hennar sögn spilar manneklan líka inn í aðstæðurnar, svo engin auðveld og skýr lausn er í sjónmáli alveg strax. „En mér finnst ástæða til að meta stöðuna núna og sjá hvað er hægt að gera.“