Stöðugleiki meginmarkmiðið

mbl.is

Persónuafsláttur hækkar um 7.000 krónur umfram almenna verðuppfærslu á næstu þremur árum og verða skerðingarmörk barnabóta komin í 150.000 krónur að þremur árum liðnum. Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir frekari aðgerðum til lækkunar vöruverðs og verður tekjuskattur á fyrirtæki lækkaður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í átta liða skjali sem lýsir aðgerðum stjórnvalda vegna kjarasamninga.

Í tilkynningunni segir að stöðugleiki í efnahagsmálum sé meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, enda stuðli hann að auknum hagvexti og velferð til langframa. Þá segir að við núverandi aðstæður sé afar mikilvægt að sköpuð séu skilyrði fyrir því að vaxtastig geti lækkað.

Meðal annarra aðgerða sem gripið verður til eru hækkun húsaleigubóta, 35% hækkun eignaskerðingamarka vaxtabóta, hækkun atvinnuleysisbóta til samræmis við hækkun lægstu launa, róttækar breytingar verða gerðar á félagslega kerfinu, áfallatryggingagjald verður lagt á vegna uppbyggingar áfallatryggingasjóðs, markvisst verður unnið að því að skapa hvata og tækifæri til menntunar og mun ríkisstjórnin beita sér fyrir breytingum á skaðabótalögum.

,,Kjarasamningar til þriggja ára sem grundvallast á hóflegum kauphækkunum og verulegri hækkun lægstu launa stuðla í senn að auknum jöfnuði og jafnvægi í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin er reiðubúin, á grundvelli stefnuyfirlýsingar sinnar, að grípa til víðtækra aðgerða í því skyni að greiða fyrir gerð slíkra kjarasamninga", segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert