Bíl var ekið á hús við Vesturgötu á Akranesi laust fyrir klukkan 15 í dag. Tveir ungir menn voru í bílnum og voru báðir fluttir á Sjúkrahúsið á Akranesi. Þeir voru meðvitundarlausir þegar að var komið og er talið að þeir séu alvarlega slasaðir.
Bílnum var ekið upp Vesturgötu þegar ökumaðurinn missti stjórn á honum, fór yfir steinvegg og grindverk og hafnaði á húsveggnum. Höggið var svo þungt að hluti veggjar og gluggi á jarðhæð hússins þeyttust inn.
Ekki er vitað hvað varð til þess að ökumaður missti stjórn á bílnum.
Mildi þykir að enginn var staddur í þessum hluta hússins þegar ákeyrslan var, en þar er svefnherbergi. Bíllinn er gjörónýtur. Á vef Skessuhorns segir, að sjónvarvottur, sem var í nærliggjandi götu, sagði að höggið hafi verið svo mikið að hann hélt að sprenging hafi orðið í húsinu.