Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fyrir helgina mann, sem hafði brotist inn í íbúð og m.a. stolið þaðan greiðslukorti húsráðanda. Kortið notaði hann síðan til að svíkja út vörur í verslunum.
Að þessu tilefni, og ýmsum öðrum sambærilegum, er brýnt fyrir öllu afgreiðslufólki í verslunum að skoða vel myndir á bakhlið greiðslukorta og bera saman við handhafa og bera saman undirskriftir. Mikilvægt er að afgreiða alls ekki vörur út á greiðslukort sem er framvísað af öðrum en handhafa kortsins. Reyni einhver að fá vörur út á greiðslukort, sem greinilega er ekki eign hans, þarf að kalla til lögreglu. Þá þarf að taka til hliðar kort, sem eru vákort, eða ætla megi að svo sé.
Greiðslukort, sem stolin hafa verið, eru gjarnan notuð til að taka út vörur, staðgreiddar eða á raðgreiðslum. Þótt flest afgreiðslufólk í verslunum skoði kortin og hafi upplýst um tilraunir í þessum efnum, hafa komið upp tilvik þar sem nægilegrar aðgæslu hefur ekki verið gætt.
Nýlegt dæmi er um ungan mann, sem „keypti" vörur í einni verslun í tvígang sama dag fyrir rúmar þrjúhundruð þúsund krónur. Hann lét útbúa raðgreiðslur í bæði skiptin, sem er sennilega til þess að eiga síður hættu á synjun á kortið.
Af upptökum úr öryggiskerfi verslunarinnar að dæma var hann hvorki spurður um persónuskilríki, né litið á kortið um hvort hann gæti verið eigandi þess eða ekki. Hann var látinn skrifa undir raðgreiðslusamningana og gekk síðan út með vörurnar. Vörurnar lét maðurinn síðan í skiptum fyrir fíkniefni.
Þá er dæmi um að afgreiðslumaður í verslun hafi „straujað" greiðslukort viðskiptavinar þrisvar sinnum. Alltaf komu upplýsingar fram um að um vákort væri að ræða. Þrátt fyrir það fór manneskjan út úr versluninni - með kortið, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.