Steingrímur segir laun enn langt undir framfærslukostnaði

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/RAX

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, segir á vef flokksins að sú hugmyndafræði, sem lögð er til grundvallar nýgerðum kjarasamningum sé góð og nálgunin sé rétt: að reyna að hækka lægstu laun og umsamda kauptaxta sérstaklega.

„Þessi niðurstaða samninganna breytir hins vegar ekki hinu, að áfram er verið að semja um í landinu laun sem eru langt undir framfærslukostnaði og þar með eiginlegum fátæktarmörkum. Ég minni á það sem þingflokkur VG hefur ítrekað lagt til, að gerð sé vönduð könnun á framfærslukostnaði og að umsamin laun taki mið af því. Enn á eftir að semja við fjölmennustu hópana sem tilheyra umönnunar- og uppeldisstéttum og ljóst að þar þarf að gera mun betur eigi að takast að stöðva flóttann úr þeim greinum.“

Þá segir Steingrímur ríkisstjórnina  aðeins að litlu leyti vera að efna loforð flokkanna frá því fyrir kosningar og fyrirheit í stjórnarsáttmála. 

„Nú í tengslum við kjarasamninga velur ríkisstjórnin að sýna lit í þessum efnum en gengur þó í reynd mjög skammt. Ríflegasta framlagið gengur til fyrirtækjanna sem fá lækkun á tekjuskattshlutfalli úr 18 í 15% strax á yfirstandandi tekjuári og er þar með skattlagning á hagnaði fyrirtækja orðin ein sú lægsta á Íslandi sem fyrirfinnst innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Augljóst er að skattapólitík og áherslur Sjálfstæðisflokksins ráða hér ferðinni. Hækkun persónufrádráttar gengur flatt yfir allan launaskalann og ríkisstjórnin hefur hafnað hugmyndum um að létta sérstaklega sköttum af lægri launum,“ segir Steingrímur.

Vefur VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert