Vel hægt að ljúka innan árs

Sú staðhæfing fulltrúa núverandi borgarstjórnar að ekki sé hægt að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýri á kjörtímabilinu vegna veðurrannsókna stenst ekki,“ segir Örn Sigurðsson, stjórnarmaður Samtaka um betri byggð.

Ummæli þeirra Gísla Marteins Baldurssonar, Dags B. Eggertssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Kastljósinu í síðustu viku gáfu til kynna að ónóg gögn lægju fyrir um framtíð Reykjavíkurflugvallar, þar sem veðurathugunum á Hólmsheiði yrði ekki lokið á kjörtímabilinu. Þetta segir Örn ekki rétt. Eftirfarandi kemur fram í minnisblaði frá fundi samtakanna með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins 8. febrúar sl.:

„Haraldur Ólafsson veðurfræðingur gerði grein fyrir því að reikna mætti vindafar og kviku yfir hugsanlegum flugvallarstæðum með töluverðri nákvæmni með tölvuhermun, sem byggir á tölvulíkani af landslagi, mælingum á veðurfari á viðkomandi stað og upplýsingum frá nálægum veðurathugunarstöðvum. Tölvuhermun tæki einungis nokkra mánuði og kostnaður væri minni en eins dags fórnarkostnaður af flugstarfsemi í Vatnsmýri.“

Fyrri athuganir gæfu til kynna að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði yfir 95%, en þetta hlutfall er talið ásættanlegt fyrir flugrekendur. Frekari athuganir væru aðeins til þess fallnar að skera úr um hvort hlutfallið væri e.t.v. 96% eða enn hærra. Örn segir niðurstöðurnar ekki það mismunandi að þær ættu að hindra löngu tímabæra pólitíska ákvörðun, töf á brottflutningi kosti samfélagið a.m.k. tíu milljónir á dag.

Stjórnarmenn samtakanna afhentu borgarfulltúunum á fundinum tillögu að tímaáætlun þar sem gert er ráð fyrir að öllum athugunum og umhverfismati vegna Hólmsheiðarflugvallar verði lokið í apríl 2009.

Samtök um betri byggð árétta að kostnaður þjóðarbúsins við að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni sé 3,5 milljarðar á ári. Því sé eðlilegt að borgin rukki ríkið 300 milljónir fyrir hvern mánuð sem brottför flugvallarins drægist fram yfir 1. mars 2010.

Þjóðhagslegur ábati af flutningi flugvallarins á Hólmsheiði er í Vatnsmýrarskýrslunni frá apríl 2007 talinn vera 38,3 milljarðar króna en 37,5 milljarðar til Keflavíkur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert