Að öllu óbreyttu munu ferðir ferjunnar Baldurs yfir Breiðafjörð leggjast af yfir vetrartímann frá lokum ársins 2009. Eftir það er einungis gert ráð fyrir tveimur ferðum í viku til og frá Flatey. Í gildi er samningur á milli Vegagerðarinnar og Sæferða ehf í Stykkishólmi um ferjusiglingar yfir Breiðafjörð og rennur sá samningur út í lok ársins 2010 með framangreindum hætti.
Það hefur verið skoðun innan Vegagerðarinnar að vegasamband um Barðaströnd verði orðið eða sé nánast að verða það gott að ferjan Baldur sé óþörf.
Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir ekki annað í stöðunni en að heilsársferðir yfir Breiðafjörð verði aflagðar. Þegar samningur við Vegagerðina rennur út verða engir styrkir greiddir fyrir ferjusiglingar. Hann segir að styrkir til ferjunnar Baldurs hafi farið að skerðast á síðasta ári.
„Eftir að styrkirnir fóru að minnka eru vetrarsiglingarnar orðnar baggi á starfseminni,“ segir hann. „Sumartekjur étast niður yfir vetrartímann. Þetta þýðir í raun að við verðum að minnka þjónustuna mjög hratt frá árinu í ár. Að óbreyttu sjáum við sem rekum ferjuna ekki að það verði í gangi neinar ferjusiglingar yfir Breiðafjörð nema yfir sumartímann.“