„Ég tel að það væri mjög æskilegt að ljúka þessu í þessari viku sem nú er að hefjast,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í Silfri Egils í gær, spurður hversu langan tíma eðlilegt væri að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, fengi til að ákveða sín næstu skref. „Auðvitað er best að svona máli ljúki sem fyrst. Óvissan skapar erfiðleika,“ sagði Geir. Hann sagði Vilhjálm hafa óskað eftir því að fá tíma til að fara yfir sín mál. „Það er eðlilegt og við eigum að veita honum það svigrúm.“
Geir ræddi einnig efnahagsmálin og sagðist ekki óttast að kreppa væri framundan þótt ástandið væri erfitt í sjávarútvegi og á fjármálamarkaði.
Sagði Geir aðspurður að margt kæmi til sem gerði að verkum að ekki þyrfti að hafa áhyggjur, m.a. vægju auknar opinberar framkvæmdir upp á móti og ávinningur af síðustu árum hefði verið notaður til að búa í haginn.