Langflestir þátttakendur í könnun, sem Capacent gerði fyrir áhugafólk um borgarmál og birt var í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld, vilja að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði borgarstjóri þegar Sjálfstæðisflokkurinn tekur við því embætti árið 2009.
Samkvæmt könnuninni vilja 43,9% þeirra, sem afstöðu tóku í könnuninni, að Hanna Birna verði borgarstjóri. Um 17% sögðust vilja að Gísli Marteinn Baldursson verði borgarstjóri, 8,2% sögðust vilja að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, núverandi oddviti sjálfstæðismanna, taki við borgarstjóraembættinu, 8% vilja Júlíus Vífil Ingvarsson, 2,1% vilja Þorbjörgu Helga Vigfúsdóttur, 1,8% vilja Jórunni Frímannsdóttur og 1,2% Kjartan Magnússon.
Meðal þeirra þátttakenda, sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn, naut Hanna Birna meira fylgis eða yfir 50%.
Fram kom að 45,4% þeirra, sem tóku þátt í könnuninni sögðust hafa kosið Sjálfstæðisflokk í síðustu borgarstjórnarkosningum en 31,4% sögðust myndu kjósa flokkinn ef kosið væri nú. 30,4% kusu Samfylkinguna en 46,7% segjast myndu kjósa hana nú. 4% kusu F-listann en 3% sögðust myndu kjósa listann nú. 5,5% sögðust hafa kosið Framsóknarflokk og 3% sögðust myndu kjósa hann nú og 14,6% sögðust hafa kosið VG en 16% sögðust myndu kjósa flokkinn væru kosningar nú.
Capacent gerði könnunina 13-18. febrúar. Úrtakið var 1800 manns í Reykjavík en svar bárust frá 1115. 880 tóku afstöðu til spurninga um borgarstjóraefni sjálfstæðismanna.