Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra hefur beint þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja, að þau bjóði ekki kröfuhöfum, sem nýta sér innheimtuþjónustu þeirra, að bæta seðilgjöldum eða sambærilegum fylgikröfum, sem neytendur hafa ekki átt kost á að samþykkja eða taka afstöðu til, við aðalkröfu sem greidd er á gjalddaga.
Þá segir viðskiptaráðuneytið, að fjármálafyrirtækjum sé óheimilt að innheimta seðilgjöld og sambærilegar fylgikröfur, sem samið hefur verið um greiðslu á við neytendur, vegna krafna sem innheimtar eru fyrir kröfuhafa á grundvelli þjónustusamnings, nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Þessi skilyrði eru, að fjárhæð gjalds endurspegli raunkostnað við útsendingu seðla. Neytendum standi til boða raunhæfur gjaldfrjáls valkostur, svo sem að greiða með millifærslu. Þá fái neytendur reikning vegna viðskipta, lögum samkvæmt, á pappír eða rafrænt.
Þá ber fjármálafyrirtækjum að tryggja gott aðgengi neytenda að viðskiptaskilmálum og gjaldskrám sínum, m.a. með hliðsjón af nútímaupplýsingatækni.
Viðskiptaráðuneytið segir, að tilmælunum sé ætlað að innleiða réttarbætur til handa neytendum og leiðrétta þá framkvæmd sem tíðkast hafi varðandi töku seðilgjalda og annars aukakostnaðar.
Segir ráðuneytið, að tilmælin séu í samræmi við grundvallarreglur kröfuréttar um að sá sem óskar eftir þjónustu greiði fyrir hana og meginreglur neytendaréttar um að samningur þurfi að standa að baki kröfu sem ekki grundvallast á lögum.
„Stór hluti viðskiptalífsins byggir á innheimtu krafna í gegnum innheimtukerfi banka og sparisjóða. Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu hafa lýst sig reiðubúin til samstarfs við ráðherra um að tryggja að farið verði eftir tilmælum þessum. Samtökin hyggjast jafnframt efla fræðslu meðal kröfuhafa um heimildir til innheimtu aukakostnaðar gagnvart neytendum og leggjast þar með á eitt með ráðherra og fjármálafyrirtækjum um að koma til leiðar að verklag við innheimtu verði í samræmi við gildandi rétt," segir í tilkynningu viðskiptaráðuneytisins.