Bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi láta nú kanna möguleika til raforkuframleiðslu þar í bæ. Á stjórnarfundi veitustofnana bæjarins sl. föstudag var lögð fram athugun VGK-hönnunar á möguleikum á raforkuframleiðslu Hitaveitu Seltjarnarness og samþykkt að vinna áfram að málinu, m.a. að kanna rekstrarforsendur og áhrif á vatnsbúskap hitaveitunnar.
„Við erum að velta fyrir okkur hvort unnt er að nýta heitt vatn til að framleiða rafmagn, annaðhvort fyrir bæjarbúa sjálfa, eða til sölu inn á dreifikerfi Landsnets,“ segir Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, en heitavatnsþörf bæjarins er annað með á annan tug borholna vestast á nesinu. Að sögn Jónmundar er verkefnið á frumstigi en rannsókn sýnir að stofnkostnaður við svokallað „Kalina-orkuver“ er um 300 milljónir króna. Slíkt orkuver gæti framleitt á bilinu 1.400-1.600 kílóvattstundir (kWh) á ári, eða sem nemur helmingi af raforkunotkun í bænum.
„Tilgangurinn með þessu er tvíþættur,“ segir Jónmundur. „Í fyrsta lagi að vinna betur úr auðlindinni sem heita vatnið er. Í annan stað að auka bæði þjónustu og verðmæti hitaveitunnar okkar.“ Hann segir þó ekkert komið á hreint í þessu máli. Ganga þurfi úr skugga um stofn- og rekstrarkostnað orkuversins og aðgæta hvort borholurnar standi undir aukinni dælingu, sem verður óhjákvæmileg ef til kemur.