Meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista í borgarstjórn Reykjavíkur kynnti í dag þriggja ára áætlun um rekstur og framkvæmdir Reykjavíkurborgar liggur nú fyrir. Áætlunin inniheldur nánari útfærslu á málefnasamningi nýs meirihluta og forgangsröðun verkefna innan fjárhagsramma Reykjavíkurborgar.
Meðal þeirra atriða sem finna má í áætluninni eru, að stórátak verður gert í uppbyggingu göngu- og hjólreiðaleiða með áherslu á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.Haldið verður áfram með verkefnið ,,frítt í strætó” með því að bjóða ekki aðeins framhaldsskólanemum heldur einnig börnum, öldruðum og öryrkjum ókeypis ferðir með strætisvögnum. Einnig verða gerðar forgangsakreinar til að bæta almenningssamgöngur
Þá koma fram áform um að auka þjónustu á leikskólum borgarinnar og hjá öðrum rekstraraðilum á næstu þremur árum. Gert er ráð fyrir verulegri fjölgun leikskólaplássa á borgarreknum leikskólum og stefnt að því að fjölga þjónustuúrræðum fyrir yngstu börnin. Haldið verður áfram uppbyggingu grunnskóla borgarinnar og þjónusta aukin við nemendur, foreldra, kennara og annað starfsfólk grunnskóla Reykjavíkur.
Kannaður verður möguleiki á að koma upp fimm ára deildum í öllum hverfum borgarinnar. Þá verður unnið eftir heildrænni framtíðarsýn í málefnum nemenda með sérþarfir og lögð áhersla á aukið sjálfstæði skóla, sveigjanleika í námi og skapandi skólastarf.
Áhersla verður lögð á fjölgun þjónustuíbúða og hjúkrunarrýma fyrir aldraða. og unnið að eflingu heimaþjónustu og samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar. Félagslegum íbúðum Reykjavíkurborgar verður fjölgað um 100 á ári eða samtals um 300 íbúðir á tímabilinu.