Einar Njálsson, verkefnisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneyti, segist ekki geta svarað fyrir sparnaðaraðgerðir á geðsviði Landspítalans, sem heyri alfarið undir heilbrigðisráðuneytið. Verkefnið Straumhvörf, átak í málefnum geðfatlaðra sem fram fer undir hatti félagsmálaráðuneytis, segir Einar hins vegar á áætlun.
Í Morgunblaðinu í gær var uppbygging í málefnum geðfatlaðra fyrir milljarð af söluandvirði Símans og hálfan milljarð úr Framkvæmdasjóði fatlaðra sögð hafa gengið hægt og illa. „Verkefnið spannar árin 2006-2010 og tekur til 160 einstaklinga á landinu öllu, í búsetu auk frekari liðveislu og stoðþjónustu. Um mitt þetta ár verður búið að tryggja húsnæði fyrir helming þessa fólks og verja til þess helmingnum af þessum einum og hálfa milljarði,“ segir Einar. „Ég held að það sé nær að segja að verkefnið sé á áætlun heldur en að það hafi gengið illa,“ segir hann.