Færri fá íslenskt ríkisfang en á undanförnum árum

Íslendingum fjölgar jafnt og þétt.
Íslendingum fjölgar jafnt og þétt. mbl.is/Þorkell

Samkvæmt breytingaskrá þjóðskrár fengu 647 landsmanna íslenskt ríkisfang árið 2007. Að sögn Hagstofunnar eru þetta færri einstaklingar en verið hefur undanfarin þrjú ár en fram til 2006 fjölgaði þeim sem veitt var íslenskt ríkisfang jafnt og þétt og mest var fjölgunin á milli 2003 og 2004.

Árið 2006 fengu 844 manns íslenskt ríkisfang og var það mesti fjöldi ríkisfangsveitinga fram að því. Árið 2007  fækkaði því ríkisfangsveitingum um 197 frá árinu á undan.

Líkt  og árin á undan fengu flestir íslenskt ríkisfang sem áður höfðu haft ríkisfang í löndum Evrópu, eða 369, og Asíu, 173.  Einstaklingum frá þessum heimshlutum sem fengu íslenskt ríkisfang fækkaði þó milli ára.  Árið 2006 fengu 462 manns sem áður höfðu ríkisfang í Evrópu íslenskt ríkisfang en 258 sem áður höfðu ríkisfang í löndum Asíu.

Flestir einstaklingar sem hlutu íslenskt ríkisfang árið 2007 höfðu áður ríkisfang í Póllandi, líkt og árin á undan. Fjöldi þeirra var þó minni en 2006,  eða 162 árið 2007 á móti 222 árið áður. Næst fjölmennasti hópurinn var áður með ríkisfang á Filippseyjum, eða 69 manns. Voru þeir einnig færri en árið á undan en þeir voru 105 árið 2006.  Árið 2007 fengu 63 einstaklingar frá löndum fyrrum Júgóslavíu íslenskt ríkisfang en árið áður voru þeir 88. Af þeim voru flestir frá Serbíu (33) og Bosníu-Hersegóvínu (24).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka