Fjáröflun barna í íþróttum mikilvæg

Mörg heimili státa af klósettpappír, eldhúsbréfum, hreinlætisvörum og fleiru sem keypt var til að styrkja börn í íþróttastarfi enda góður málstaður þar á ferð. Fjáröflun barnanna er gríðarlega mikilvæg, að sögn Drafnar Sveinsdóttur en hún er foreldri barna í Knattspyrnufélaginu Haukum.

„Að mínu mati er mikilvægt að börnunum finnist ekki sjálfsagt að þau geti farið í allar ferðir og gert allt sem er í boði hjá félögunum en fjáröflunin dreifir kostnaði foreldra,“ segir Dröfn sem hefur starfað í foreldrastarfi Hauka sleitulaust í 12 ár. „Við notum fjáröflunina til að greiða fyrir æfingabúðir, mót og ef vel hefur gengið greiðir hún jafnvel fyrir fatakaup. Fjáröflunarleiðir okkar hafa verið ýmsar og við höfum gert allt mögulegt. Ég get tekið minn flokk sem dæmi en við erum einmitt að safna fyrir æfingaferð núna. Í eitt skipti seldum við ýmsar hreinlætisvörur frá Frigg, við höfum verið með kökubasar, selt fisk, sælgæti, klósettpappír og svo framvegis. Við höfum líka safnað dósum sem gefur góðan pening en það er gríðarleg vinna sem fylgir því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert