Hættulegt að hætta að stimpla?

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kemur fram að stimpilgjöld í fasteignaviðskiptum verði afnumin á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfi. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar síðastliðnum í tengslum við kjarasamninga kemur fram að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að stimpilgjöld vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign verði felld niður. Ekkert er minnst á hvenær farið verði af stað með frekari niðurfellingu.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir þessa ákvörðun afskaplega mikilvæga. „Stimpilgjöld eru að mínu mati óeðlileg skattheimta. Það eru að skapast mjög mikil tækifæri til að afnema þessi gjöld með öllu, nú er þensluástandið að verða að baki og það er afar gott að geta fellt þetta niður af fyrstu kaupum núna.“

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segir þessa aðgerð vera fyrsta skrefið. „Ég vísa hins vegar á fjármálaráðherra varðandi nánari útfærslu á tillögunum.“

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir að það muni fara eftir því hvernig fasteignamarkaðurinn þróist hvernig gengið verði fram í að afnema stimpilgjöld. „Undir ákveðnum kringumstæðum getur verið hættulegt að fella stimpilgjöld niður og orðið til þess að hækka fasteignaverð. Á öðrum tímum getur svona aðgerð orðið til þess að hressa við frosinn fasteignamarkað.“ Aðspurður hvort slíkur tími sé ekki einmitt nú svarar Árni því til að orðið á götunni sé ekki í fullu samræmi við veruleikann. „Hagtölur sýna að samdráttur í fasteignaviðskiptum er ekki eins mikill og talað er um.“ Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins var þó ríflega 200 færri kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í janúar í ár en á sama tíma á síðasta ári. Sömu þróun má greina það sem af er febrúarmánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert