Hegningarlagabrot í janúar í ár voru almennt færri í lögregluumdæmunum þetta árið en í janúar 2007. Brotin voru þó fleiri en í fyrra á Akranesi, Blönduósi, Sauðárkróki og Seyðisfirði. Fíkniefnabrot voru fleiri nú í átta umdæmum en þeim fækkaði á höfuðborgarsvæðinu þar sem brotin eru flest. Þar af leiðandi var heildarfjöldi fíkniefnabrota færri en síðustu tvö ár.
Þetta kemur fram í yfirliti ríkislögreglustjóraembættisins um afbrotatölfræði í janúar. Þar kemur einnig fram, að umferðarlagabrotum í umdæmum Borgarneslögreglu og lögreglunnar á Eskifirði fjölgaði mikið í janúar. Er þetta rakið til stafrænna hraðamyndavéla, sem hafa verið settar upp á þessum svæðum.