Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varð að skila hluta af þeim varningi sem lagt var hald á vegna rannsóknar á umfangsmiklum þjófnaði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í fyrra aftur til þeirra sem grunaðir voru um að hafa stolið honum úr búðunum.
Ástæðan er sú að ekki tókst að sýna fram á með óyggjandi hætti að um þýfi væri að ræða.
Í þessu tiltekna máli voru alls 14 Litháar handteknir í tengslum við rannsókn málsins og lagt hald á mikið magn af dýrum fatnaði, íhlutum í tölvur og ógrynni af rakvélablöðum. Sex voru síðan ákærðir en af þeim voru fjórir dæmdir í tveggja til tíu mánaða fangelsi. Öllum skaðabótakröfum í málinu var vísað frá dómi.
Að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, kemur það endrum og eins fyrir að lögregla neyðist til að skila munum, sem hún telur að sterkar líkur á að séu þýfi, til þeirra sem grunaðir eru um þjófnaðinn.
Ómar Smári bendir á að í frumvarpi sem dómsmálaráðherra lagði fram í fyrra til breytinga á almennum hegningarlögum fái lögregla víðtækari heimild til að krefjast þess að varningur sé gerður upptækur.
Í frumvarpinu er m.a. lagt til að unnt verði að gera upptæk verðmæti án þess að sýnt sé fram á að þau megi rekja til tiltekins refsiverðs brots hafi viðkomandi gerst sekur um brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og geti brotið varðað að minnsta kosti sex ára fangelsi. Að þessum skilyrðum uppfylltum má gera upptæk verðmæti sem tilheyra viðkomandi, nema hann sýni fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. „Ef þetta kemst í gegn, þá er það bara hið besta mál,“ segir Ómar Smári.