Um þrjátíu Pólverjar, sem áður störfuðu hjá Arnarfelli við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, fá ekki endurráðningu hjá nýju fyrirtæki Landsvirkjunar.
Landsvirkjun rifti um sex milljarða króna samningi sínum við Arnarfell eftir að samningaviðræður fyrirtækisins við sína helstu lánardrottna fóru út um þúfur í lok janúar.
Til að ganga inn í verkþætti Arnarfells stofnaði Landsvirkjun nýtt fyrirtæki tímabundið undir heitinu Hraunaveita. Hið nýja fyrirtæki yfirtók vélbúnað og birgðir Arnarfells og hugðist ráða starfsfólk verktakans fráfarandi til sín.
Samkvæmt heimildum 24 stunda hefur Landsvirkjun nú yfirtekið flesta ráðningarsamninga Arnarfells. Stór hópur Pólverja hefur hins vegar ekki enn snúið aftur til vinnu eftir að hafa farið til síns heima í desember.
„Ég fundaði með þessu nýja fyrirtæki fyrir helgi og þar krafðist ég að þessir starfsmenn fengju einhvers konar niðurstöðu í sínum málum fyrir vikulok, því mér finnst þeirra mál ekki hafa verið leyst nægilega vel.“ Þetta segir Oddur Friðriksson yfirtrúnaðarmaður starfsmanna Kárahnjúkavirkjunar.