Landsvirkjun ræður ekki alla starfsmenn Arnarfells

Um þrjátíu Pólverjar, sem áður störfuðu hjá Arnarfelli við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, fá ekki endurráðningu hjá nýju fyrirtæki Landsvirkjunar.

Landsvirkjun rifti um sex milljarða króna samningi sínum við Arnarfell eftir að samningaviðræður fyrirtækisins við sína helstu lánardrottna fóru út um þúfur í lok janúar.

Til að ganga inn í verkþætti Arnarfells stofnaði Landsvirkjun nýtt fyrirtæki tímabundið undir heitinu Hraunaveita. Hið nýja fyrirtæki yfirtók vélbúnað og birgðir Arnarfells og hugðist ráða starfsfólk verktakans fráfarandi til sín.

Samkvæmt heimildum 24 stunda hefur Landsvirkjun nú yfirtekið flesta ráðningarsamninga Arnarfells. Stór hópur Pólverja hefur hins vegar ekki enn snúið aftur til vinnu eftir að hafa farið til síns heima í desember.

„Ég fundaði með þessu nýja fyrirtæki fyrir helgi og þar krafðist ég að þessir starfsmenn fengju einhvers konar niðurstöðu í sínum málum fyrir vikulok, því mér finnst þeirra mál ekki hafa verið leyst nægilega vel.“ Þetta segir Oddur Friðriksson yfirtrúnaðarmaður starfsmanna Kárahnjúkavirkjunar.

Ekki þörf fyrir alla

„Við erum komnir með um hundrað fyrrverandi starfsmenn Arnarfells til vinnu hjá okkur. Þar af eru líklega um 35 útlendingar, langflestir Pólverjar. Við erum búnir að bjóða um tuttugu Pólverjum vinnu sem áður störfuðu hjá Arnarfelli og er von á þeim bráðlega. En út af stendur að nokkur hópur Pólverja sem var í vinnu hjá Arnarfelli og er enn úti í Póllandi fær ekki vinnu hjá okkur því við þurfum hreinlega ekki á þeim að halda. Það eru áhöld um hvort þeir séu með ráðningarsamninga við Arnarfell eða ekki, en það er okkur óviðkomandi,“ segir Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar.
Í hnotskurn
Hjá Arnarfelli störfuðu á Kárahnjúkum á annað hundrað manns þegar mest var. Fyrirtækið vann við gangagerð og byggingu Jökulsár- og Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert