Eftir Hjört Gíslason
Enn hefur ekki tekizt að mæla nægilega mikið af loðnu til að standa undir þeirri veiðireglu Hafrannsóknastofnunar að tryggja nægilega hrygningu nú í vetur. Til þess þarf 400.000 tonn. Það hníga því öll rök að því að veiðar verði bannaðar í dag. Það gæti þýtt að loðnuafli í vetur verði aðeins um 30.000 tonn. Það yrði minnsti afli frá því á árunum 1983, þegar engin veiði var leyfð og árið áður, þegar aflinn varð aðeins 13.000 tonn.
Í fyrra veiddu íslenzku skipin 307.000 tonn og má reikna með því að útflutningsverðmæti afurða þá hafi verið nálægt 12 milljörðum króna. Í gærkvöldi hafði verið tilkynnt um 27.000 tonna afla til Fiskistofu. Verði aflinn ekki meiri en 30.000 tonn, verður útflutningsverðmæti að hámarki 1,2 milljarðar króna. Það er tíundi hluti þess sem var í fyrra. Verðmætatap frá því í fyrra er tæpir 11 milljarðar.
Ljóst er að það verður þungbært þeim sjávarútvegsfyrirtækjum og byggðarlögum, sem mest hafa reitt sig á loðnuna. Síldarvinnslan og Samherji eru nátengd og þessi tvö fyrirtæki eru með um 30% loðnuheimildanna. Næst koma Ísfélagið með 20%, HB Grandi með 18%, Vinnslustöðin og tengd fyrirtæki með 12% og Eskja með um 10%. Yfir þeim vofir því verulegt tekjutap.